Veiðiferð skráð af: Diddi Eðvarðs

Veiðistaður

Dags:
 25.06.2018 20:00 - 27.06.2018 22:30
Staðsetning:
 Suðvesturland
Veiði:
 Silungsveiði
Lýsing

Geggjuð ferð í Hlíðarvatn í Selvogi með Guðmundi Skúlasyni, Sigurði Sigurjóns og Bjarna Óla.
Fengum fiska í Hlíðarey, Botnavík, Forarhólma og Hjalltanga. Botnavíkin gaf þá vænu eins og oft áður.
Núna höfum við farið á hverju ári síðan 2011. Það stóð til að panta tvo daga sem urðu óvart þrír fyrir enhvern klaufaskap og vitleysu. Við byrjuðum á að mæta í hús Árbliks sem staðsett er í Botnavík, húsið er lítið og skemmtilegt. Þetta er dálítið eins og að ferðast sextíu ár aftur í tímann, eins og með öll húsin við Hlíðarvatn eru þarna engin nútíma þægindi. Kalt vatn og klósett er það eina sem við þurfum til að "lifa af" vistina. Þarna er 12V rafmagn sem rétt heldur lífi í ljóstýru, annars er ég enginn rafvirki. Hægt er að kynda húsin upp með gasi. Kolagrill eru á staðnum í öllum húsum nema húsi Ármanna, þar er gasgrill ef ég man rétt. Það er nauðsynlegt að hverfa burt frá nútímanum og upplifa þetta í einungis fjörtíu mínútna fjarlægð frá höfuðborginni. Við kunnum þetta, enda þaulreyndir útilegu og veiðimenn.
Við reyndum fyrsta kvöldið en það var lítið líf í Botnavík, Þetta byrjaði líka illa, ég var rétt að græja stöngina, stóð upp og rann til. Ég lenti með hnéskelina á hvössu grjóti og þetta var hræðilega sárt, ég hugsaði "jæja Diddi minn, nú er það bara beint á sjúkrahúsið". En fyrir algera lukku bortnaði hnéskelin ekki þótt ótrúlegt væri, ég lá þarna í korter eða svo, haltraði svo um og vorkenndi mér svakalega..en svo versnaði það, nýju Simms Freestone vöðlurnar voru rifnar á hnénu og mígláku. Jæja, þá var farið í hús og límdar bætur og ég mátti bíða í sólarhring þar til ég fengi vöðlurnar aftur eftir tvær límumferðir. Skítt með hnéð, vöðlurnar láku og þar var það versta.
Við ákváðum að gera gott úr þessu og grilla nauta ribeye, með grillkartöflum og fylltum risasveppum. Við höfðum rauðvín með og allt heppnaðist þetta ótrúlega vel. Kolagrillið gerði gæfumuninn þarna og við komumst að því að gasgrill eru ofmetin. Bjarni ákvað að mæta kvöldi seinna en við þrír og missti því af veislunni.
Við þrír vöknuðum frekar snemma svona miðað við allt og andleg og líkamleg heilsa manna var nú misgóð. Sumir ákváðu að sofa bara og jafna sig eftir mikið og gott viskísmakk kvöldið áður. Ég nefni engin nöfn en við Guðmundur héldum ótrauðir til veiða.
Ég stanglaði um vöðlulaus og upplifði mig takmarkaðan og hálf asnalegan þarna á bakkanum. Guðmundur var hinsvegar glæsilegur í Simms pakkanum og bar sig töluvert betur en ég. Botnavíkin var reynd í þaula en bleikjan var bara ekki mætt. Við ákváðum svo að rúlla til Grindavíkur til Bjarna þar sem okkur var boðið í leik og pítsu, Ísland átti leik við Króatíu og nú varð allt að ganga upp, Argentína þurfti að vinna Nígeríu með ákveðnum markamun nema Nígería gerði jafntefli og Ísland ynni með tveimur mörkum eða þá hinn möguleikinn og þetta var allt eitthvað svo flókið. Ísland tapaði leiknum og datt út úr HM, skemmst frá að segja.
Við fluttum okkur yfir í SVFS veiðihúsið, þar sem við áttum leyfi þar frá kl. 20:00 það kvöldið. Við reyndum Hjalltangann og þar virtist vera líf, Bjarni setti í fisk og allt leit vel út. En svo missti ég GoPro vélina mína í vatnið og hvorki náði að teygja mig eftir henni né sjá hana þar sem þarna var dálítið stórgrýtt. Ég hugsaði hvernig ég myndi útskýra þetta fyrir konunni sem gaf mér vélina núna í maí. Ég grísaði svo á að veiða vélina upp með stangarskaftinu sem betur fer. Sigurður stóð á Forarhólmi og var að setja í fisk, við hinir vorum bara rólegir þetta kvöldið enda vou vonir bundnar við næsta dag, spáin var alveg dásamleg.
Á miðvikudag vöknuðum við kl. 07:00 og núna voru vöðlurnar komnar í lag. Við héldum til veiða eftir miklar spekúleringar og rótsterkan kaffibolla að hætti Skúlasonar. Við Siggi vildum reyna Mölina og færa okkur svo yfir á Hjalltanga og í austurátt, Skúlasyni leist ekkert á það og var dauðhræddur um að við myndum festast á Hjalltanganum. Við ákváðum bara að skipta liði. Sögur fara af því að Guðmundur hafi hitt óðinshana sem hafi oft gefið okkur góð veiðiráð, haninn heitir Óðinn og honum leist ekkert á það að ég hefði fest mig á Hjalltanga, hristi bara höfuðið og synti í burtu. En við förum ekki nánar út í það þar sem þetta er alger einkahúmor.
Eftir smá tíma byrjaði bleikjan að taka sú fyrsta kom á Hjalltanga hjá mér, hún tók Krókinn eftir Gylfa Kristjáns og var bara nokkuð væn eða um 2 pund. Skúlason og Bjarni urðu einnig varir við líf við Hlíðarey og Réttina. Við Bjarni ákváðum svo að kíkja í Forarhólma og spegilslétt vatnið iðaði af lífi. Ég reyndi nokkrar flugur en fékk ekki viðbrögð fyrr en ég setti undir Pheasant Tail (Sawyer) sem ég verð að segja að er alveg hreint ótrúleg fluga. Eins og ég hnýti hana er hún lítil og ljót, alveg eins og bleikjan vill hafa hana.
Bleikjan í Forarhólma var nokkrum númerum of smá, svokallað Hlíðarvatnspund. Sem er eiginlega ekki einusinni pund, meira svona vel tæpt pund. Ég ákvað að vatnið mætti grisja og hirti þarna nokkra grillvæna titti. Þeir eru sterkir þessir litlu, þeir mega nú eiga það.
Við Bjarni ákváðum að kíkja í Urðarvík og athuga hvort bleikjan væri mætt þangað, okkur grunaði líka að þar væri vænni fiskur. En við rétt vildum athuga fyrst hvort Botnavíkin væri lifandi og keyrðum því örlítið lengra. Þar fyrst byrjuðu ævintýri, fiskur var að vaka út um allt og við sáum að hann var vænn. Ég skakklappaðist yfir girðinguna og út á grjótgarðinn rétt utan við Botnlanga. Hann var á í öðru kasti, Pheasant Tail aftur og hann var nautsterkur. Ég landaði honum og fékk svo töku í næsta kasti, en sá slapp frá mér. Ég fékk annan svipaðan og svo kom sá stóri og þetta er svona einn af þessum sem maður gleymir aldrei. Ég þorði ekki að ákveða að hann væri þyngri en 4 pund, en allir voru sammála um að hann væri 5 pund, einhverjir sögðu 6 pund, en við sættumst á 5 pund. Einfaldast hefði verið að nota bara pundarann sem ég var með á mér, af hverju gerði ég það ekki bara?
Við hættum mjög sáttir og fengum góða gesti um kvöldið, á seinasta degi var óveður og varla hundi út sigandi, en það allt í lagi. Við vorum saddir og sáttir, Hlíðarvatn í Selvogi var búið að gefa nóg og rúmlega það, nú var Hlíðarvatn búið að fá nóg af okkur félögum og ákvað að senda okkur heim.
Það er ekki að ástæðulausu að þessi ferð er árleg hjá okkur. Félagsskapurinn, útiveran, baslið, náttúrufegurðin og þessir vænu fiskar. Það er varla hægt að segja frá því hversu fullkomið veðrið var og hversu mikil forréttindi það eru að fá að upplifa svona aðstæður, ég hef alltaf sagt að ég skil ekki menn sem ekki veiða.

Veður
veður Gola
Hlýtt (10°-14°)
Hálfskýjað

Afli

Veiðimaður: Diddi Eðvarðs

TegundFjöldiKgCmKynSleppt?AgnVeiðistaðurAthugasemd
Bleikja12.5 Hængur Nei Pheasant tail Sawyer no. 12
Bleikja21.0 Hængur Nei Pheasant tail Sawyer no. 12
Bleikja10.8 Hrygna Nei Krókurinn no. 10
Bleikja10.6 Hrygna Nei Pheasant tail Sawyer no. 12
Bleikja10.6 Hængur Nei Pheasant tail Sawyer no. 12
Bleikja30.5 Hængur Nei Pheasant tail Sawyer no. 12
Bleikja10.5 Hrygna Nei Peacock no. 12
Bleikja10.4 Hængur Nei Pheasant tail Sawyer no. 12
Myndir

Hli%cc%81%c3%b0o%cc%812
Hlíðarvatn í Selvo...
Hli%cc%81%c3%b0o%cc%81
Hlíðarvatn í Selvo...

Viltu deila þessari ferð með öðrum? Sendu þeim póst: